Hvað segja flokkarnir sem bjóða sig fram til Alþingis um málefni fólks á flótta?
Öllum þeim flokkum sem bjóða fram til Alþingis í kosningunum sem fram fara 30. nóvember n.k. voru sendar þrjár spurningar er snúa að málefnum flóttafólks. Átta af ellefu flokkum svöruðu og munu svörin birtast hér á næstu dögum.
Óskað var eftir svörum við eftirfarandi spurningum:
Hver er stefna flokksins í málefnum fólks á flótta?
Hver er afstaða flokksins til þess sem dómsmálaráðherra hefur kallað lokað búsetuúrræði fyrir fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd?
Hver er afstaða flokksins til þess að nú séu íslensk stjórnvöld farin að afturkalla dvalarleyfi einstaklinga, barna og fjölskyldna sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd og dvalið árum saman?*
*Nánari upplýsingar: https://heimildin.is/grein/23126/segir-nyju-utlendingalogin-notud-i-skipulagda-herferd/#_=_
Spurt var:
1. Hver er stefna flokksins í málefnum fólks á flótta?
2. Hver er afstaða flokksins til þess sem dómsmálaráðherra hefur kallað lokað búsetuúrræði fyrir fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd?
3. Hver er afstaða flokksins til þess að nú séu íslensk stjórnvöld farin að afturkalla dvalarleyfi einstaklinga, barna og fjölskyldna sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd og dvalið árum saman?
Ábyrg framtíð: Engin svör.
Flokkur fólksins: Engin svör.
Framsóknarflokkurinn
Hver er stefna flokksins í málefnum fólks á flótta?
Framsókn vill bæta móttöku og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd með auknu samráði við sveitarfélög til að dreifa álagi á innviði þeirra. Flokkurinn leggur áherslu á að tryggja samræmda þjónustu og viðeigandi stuðning fyrir alla umsækjendur. Einnig vill Framsókn auðvelda innflytjendum að fá menntun sína erlendis frá viðurkennda og styðja við raunfærnimat.
Hver er afstaða flokksins til þess sem dómsmálaráðherra hefur kallað lokað búsetuúrræði fyrir fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd?
Framsókn vill ekki að börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd þurfi að búa í lokuðum búsetuúrræðum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Flokkurinn leggur áherslu á að mannréttindi barna á flótta séu tryggð og að hagsmunir þeirra séu í fyrirrúmi við ákvarðanatöku um dvöl þeirra hér á landi.
Hver er afstaða flokksins til þess að nú séu íslensk stjórnvöld farin að afturkalla dvalarleyfi einstaklinga, barna og fjölskyldna sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd og dvalið árum saman?
Framsókn leggur áherslu á mannúðarsjónarmið og réttláta málsmeðferð í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Flokkurinn vill tryggja að framkvæmd laga sé skilvirk og að mannréttindi séu virt. Hins vegar hefur flokkurinn ekki tekið nákvæma afstöðu til afturköllunar dvalarleyfa.
Lýðræðisflokkurinn
Hver er stefna flokksins í málefnum fólks á flótta?
Eftirfarandi segir í stefnu Lýðræðisflokksins:
"Hæliskerfi (alþjóðleg vernd) verði lagt niður og Ísland taki eingöngu á móti kvótaflóttamönnum eða á grundvelli fjöldaflótta. Ekki verði hægt að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Fjármunum er almennt betur varið til að hjálpa fólki á heimaslóðum þeirra.
Viðunandi færni í íslensku verði, að meginstefnu, skilyrði fyrir endurnýjun allra dvalarleyfa og veitingu ríkisborgararéttar á Íslandi."
Hver er afstaða flokksins til þess sem dómsmálaráðherra hefur kallað lokað búsetuúrræði fyrir fólk sem sækir hér um alþjóðlFlokkurinn gerir ekki athugasemd við afturköllun dvalarleyfa skv. 48. gr. laga um útlendinga.ega vernd?
Lýðræðisflokkurinn telur ekki þörf á lokuðu búsetuúrræði verði hæliskerfið lagt niður.
Hver er afstaða flokksins til þess að nú séu íslensk stjórnvöld farin að afturkalla dvalarleyfi einstaklinga, barna og fjölskyldna sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd og dvalið árum saman?
Flokkurinn gerir ekki athugasemd við afturköllun dvalarleyfa skv. 48. gr. laga um útlendinga.
Miðflokkurinn
Hver er stefna flokksins í málefnum fólks á flótta?
Miðflokkurinn leggur áherslu á að litið sé til reynslu Norðurlandanna varðandi málefni
hælisleitenda. Miðflokkurinn leggur áherslu á að styðja fólk á heimaslóð þar sem fé nýtist
sem best og taka við kvótaflóttamönnum í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar.
Hver er afstaða flokksins til þess sem dómsmálaráðherra hefur kallað lokað búsetuúrræði
fyrir fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd?
Miðflokkurinn telur að bregðast verði við þróuninni en hælisumsóknum hefur fjölgað
hratt á Íslandi á meðan þeim fækkar í nágrannalöndunum. Þessa þróun verður að stöðva.
Aukning skipulagðra glæpa og vísbendingar um aukna starfsemi erlendra afbrotahópa
hérlendis kalla á öflug viðbrögð í löggæslu. Nauðsynlegt er að taka Schengen-samkomulagið
til endurskoðunar í ljósi breyttra aðstæðna og í ljósi reynslunnar.
Hver er afstaða flokksins til þess að nú séu íslensk stjórnvöld farin að afturkalla dvalarleyfi
einstaklinga, barna og fjölskyldna sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd og dvalið árum
saman?
Miðflokkurinn telur að gæsla landamæra og málefni hælisleitenda og flóttamanna kalli
á hertar aðgerðir til að vernda íslenskt samfélag. Mikilvægt er að útgjöld ríkissjóðs til málefna
hælisleitenda og flóttamanna verði hamin og skilvirkni í málsmeðferð aukin.
Píratar
Hver er stefna flokksins í málefnum fólks á flótta?
Píratar vilja afnema breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um útlendinga á síðustu misserum, sem leitt hafa til alvarlegrar skerðingar mannréttinda fólks á flótta, m.a. til nauðsynlegrar grunnþjónustu, endurskoðunar ákvarðana stjórnvalda og fjölskyldusameiningar.
Píratar stefna að inngildandi samfélagi fjölbreytileika og mannréttinda. Píratar vilja byggja upp fjölbreytt og farsælt fjölmenningarsamfélag með því að tryggja innflytjendum tækifæri til virkrar þátttöku og sporna gegn fordómum.
Píratar vilja ráðast í samfélagsátak til að sporna við fordómum, útlendingahatri og hatursorðræðu, með það að markmiði að byggja upp samfélag sem grundvallast á samkennd og samhug.
Píratar vilja auka mannúð og lækka kostnað við móttöku flóttafólks á Íslandi, m.a. með því að leyfa fólki að vinna á meðan umsókn er til meðferðar og með því að bæta umsóknarferlið. Beiting matskenndra ákvæða útlendingalaga skal vera af mannúð, virðingu fyrir fólki og skilningi á aðstæðum þess. Píratar vilja leggja niður Útlendingastofnun í núverandi mynd og færa verkefni stofnunarinnar til annarra stjórnvalda, svo sem Þjóðskrár og sýslumanna.
Hver er afstaða flokksins til þess sem dómsmálaráðherra hefur kallað lokað búsetuúrræði fyrir fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd?
Mikil upplýsingaóreiða er um það hvað átt er við þegar dómsmálaráðherra talar um lokuð búsetuúrræði. Virðist ýmist átt við úrræði til þess að bregðast við átölum tengdum Schengen samstarfinu, fyrir einstaklinga sem í núverandi fyrirkomulagi eru að ósekju vistaðir í fangelsi, eða tilraunir til þess að takmarka aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd að samfélaginu með almennari hætti.
Píratar leggjast alfarið gegn hugmyndum um að takmarka aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd að samfélaginu með almennum hætti, enda engin þörf á því nema síður sé.
Hver er afstaða flokksins til þess að nú séu íslensk stjórnvöld farin að afturkalla dvalarleyfi einstaklinga, barna og fjölskyldna sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd og dvalið árum saman?
Píratar telja mikilvægt að fólki á flótta standi til boða varanleg úrræði til þess að lágmarka óöryggið og óvissuna sem fólk í þeirri stöðu býr þegar við. Örugg heimild til dvalar og stigvaxandi aukning réttinda eru mikilvægir þættir til þess að stuðla að inngildingu fólks og möguleikum þess á að koma undir sig fótunum í nýju samfélagi.
Afturköllun dvalarleyfa fólks sem ekkert hefur sér til sakar unnið þjónar engum tilgangi, en hefur skaðleg áhrif á bæði þá einstaklinga sem um ræðir og samfélagið allt, auk þess að valda óþarfa álagi á kerfið og kostnaði fyrir ríkissjóð. Píratar eru eindregið mótfallnir þeirri stefnu núverandi stjórnvalda og slíkum aðgerðum yfirhöfuð.
Samfylkingin
Hver er stefna flokksins í málefnum fólks á flótta?
Samfylkingin fagnar auknum fjölbreytileika íslensks samfélags og leggur áherslu á mikilvægi inngildingar til að aðfluttir landsmenn njóti jafnræðis á við aðra íbúa. Samfylkingin leggur áherslu á að koma í veg fyrir að til verði erlend undirstétt á Íslandi sem býr við verri stöðu, aðbúnað og launakjör en aðrir.
Þegar kemur að málum fólks á flótta eru einkum þrjú viðmið sem Samfylkingin hefur haft að leiðarljósi. Í fyrsta lagi mannúð, í öðru lagi skilvirkni og í þriðja lagi samræmi við löggjöf annarra Evrópuríkja, þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands, tilmæli flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og fyrirmyndir annars staðar frá sem samræmast grunngildum jafnaðarstefnunnar. Stytta þarf málsmeðferðartíma umsókna um alþjóðlega vernd og auka skilvirkni kerfisins, ekki eingöngu þegar kemur að skjótri afgreiðslu og brottvísun þeirra sem er synjað, heldur ekki síður hjá þeim sem eiga rétt á dvalarleyfi hér á landi enda stuðlar styttri biðtími að minni kostnaði og farsælli inngildingu.
Styrkja þarf Útlendingastofnun til að taka skjótar, faglegar og vandaðar ákvarðanir til að auka skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma. Þá leggur Samfylkingin áherslu á réttaröryggi og mannhelgi umsækjenda um alþjóðlega vernd og fólks í umborinni dvöl. Efla þarf innviði og verklag hins opinbera móttökukerfis flóttafólks. Mikilvægt er að virða rétt flóttafólks til fjölskyldusameiningar í samræmi við tilmæli Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna enda er fjölskyldusameining grunnforsenda farsællar inngildingar.
Samfylkingin vill fara í markvissar aðgerðir til að vinna gegn andúð, fordómum og hatursorðræðu sem á rætur að rekja til útilokandi þjóðernishyggju og tryggja þar með að aðflutt fólk upplifi sig velkomið og öruggt á Íslandi.
Hver er afstaða flokksins til þess sem dómsmálaráðherra hefur kallað lokað búsetuúrræði fyrir fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd?
Samfylkingin hefði ekki stutt frumvarp um lokuð búsetuúrræði sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda í upphafi þessa árs. Samfylkingin getur ekki stutt það að fólk sé frelsissvipt á þeim forsendum einum að það hafi sótt um alþjóðlega vernd. Þá er Samfylkingin algjörlega mótfallin því að vista börn í lokuðum búsetuúrræðum.
Samfylkingunni hugnast ekki hugmyndir dómsmálaráðherra sem fram komu í umræddu frumvarpi um að frelsissvipta einstaklinga um ótilgreindan tíma á meðan að ákvörðun um hvort umsókn þeirra um alþjóðlega vernd verður samþykkt eða synjað er til meðferðar stjórnvalda. Þá er Samfylkingin mótfallin því að umsækjendur sem fengið hafa synjun á umsókn sinni verði vistaðir í lokaðri búsetu áður en stjórnvöld hafa skipulagt brottvísun, önnur og vægari úrræði þurfi að nota til að tryggja að þeir láti sig ekki hverfa.
Í undantekningartilvikum kann þó að vera nauðsynlegt að frelsissvipta umsækjendur um alþjóðlega vernd eða aðra útlendinga sem fengið hafa synjun á umsókn sinni til að tryggja að skipulögð brottvísun fari fram. Að mati Samfylkingarinnar verður slíkt þó einungis gert að undangengnum dómsúrskurði þegar ljóst er að önnur og vægari úrræði duga ekki.
Þá verður slíkri frelsissviptingu afmarkaður afar skammur tími (örfáir sólarhringar). Undanfarin ár hafa stjórnvöld ítrekað fært útlendinga í gæsluvarðhald í fangelsi til að tryggja að brottvísun sem búið er að skipuleggja geti farið fram. Ákvæði Schengen samkomulagsins leggja bann við því að vista útlendinga sem ekki hafa gerst brotlegir við refsilög í fangelsi til að tryggja brottvísun þeirra. Íslensk stjórnvöld þurfa að koma sér upp viðeigandi úrræði sem uppfyllir skilyrði alþjóðlegra mannréttindasamninga fyrir þessi afmörkuðu tilvik. Að mati Samfylkingarinnar væri slíkt úrræði þó ekki ætlað til búsetu heldur einungis til vistunar í örfáa sólarhringa.
Hver er afstaða flokksins til þess að nú séu íslensk stjórnvöld farin að afturkalla dvalarleyfi einstaklinga, barna og fjölskyldna sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd og dvalið árum saman?
Samfylkingin leggst alfarið gegn umræddri framkvæmd. Afturköllun dvalarleyfa fólks sem haft hefur dvalarleyfi hér á landi um margra ára skeið er hvorki mannúðleg né til þess fallin að auka skilvirkni í kerfinu, þá verður ekki séð að hún sé í samræmi við löggjöf eða framkvæmd í nágrannaríkjum okkar. Að mati Samfylkingarinnar er nauðsynlegt að hverfa frá umræddri framkvæmd og breyta lögum ef talið er að framkvæmdin byggist á lagaskyldu. Það er grundvallaratriði og forsenda farsællar inngildingar að tryggja flóttafólki varanlega lausn. Stefna okkar í málefnum flóttafólks getur ekki grundvallast á því að veita fólki dvalarleyfi og inngilda það í íslenskt samfélag til þess eins að vísa þeim frá landi nokkrum árum síðar. Stefna sem felur í sér slíka meðferð á fólki mun einungis leiða til sóunar á almannafé, félagslegra vandamála og mannlegs harmleiks fyrir það fólk sem um ræðir.
Sjálfstæðisflokkurinn
Hver er stefna flokksins í málefnum fólks á flótta?
Flóttamannakerfið er neyðarkerfi ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi. Það er nauðsynlegt að fólk sem hingað kemur og þarfnast raunverulegrar verndar gegn ofsóknum og stríði að það fái vandaða og skjóta úrlausn sinna mála. Alþjóðleg vernd er ekki dvalarleyfisflokkur fyrir einstaklinga sem eru í leit að betri lífskjörum.
Stefna flokksins miðar því meðal annars að því að samræma lög um útlendinga við löggjöf í öðrum Evrópuríkjum, þá einkum Norðurlöndunum. Í því sambandi er mikilvægt að reglur um málsmeðferð séu sambærilega, en einnig skal stefnt að því að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar, tryggja hagræðingu við nýtingu fjármagns og jafnframt fækka tilhæfulausum umsóknum um vernd.
Hver er afstaða flokksins til þess sem dómsmálaráðherra hefur kallað lokað búsetuúrræði fyrir fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd?
Sjálfstæðisflokkurinn er fylgjandi brottfararúrræðum. Ísland er í dag eina ríkið innan Schengen sem ekki hefur innleitt brottfararúrræði fyrir einstaklinga í ólögmætri dvöl. Þetta hefur valdið ítrekuðum athugasemdum vegna réttarfarslegs tómarúms, þar sem stjórnvöld geta ekki framfylgt brottvísunum þeirra sem synjað hefur verið um vernd og hafna samvinnu. Afleiðingarnar eru alvarlegar, þar á meðal félagsleg einangrun og óvissa, bæði fyrir viðkomandi einstaklinga og íslenskt samfélag.
Samkvæmt Schengen regluverkinu ber okkur ekki aðeins skylda til að tryggja sanngjarna og réttláta málsmeðferð, heldur einnig að framfylgja ákvörðunum stjórnvalda. Að vanrækja þessa skyldu grefur undan trúverðugleika Íslands innan samstarfsins.
Brottfararúrræði þurfa ekki að vera harðneskjuleg, heldur mannúðleg og hluti af ábyrgri útlendingalöggjöf sem tryggir jafnvægi milli réttinda og skyldna.
Hver er afstaða flokksins til þess að nú séu íslensk stjórnvöld farin að afturkalla dvalarleyfi einstaklinga, barna og fjölskyldna sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd og dvalið árum saman?
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að ákvarðanir stjórnvalda séu í samræmi við lög, en einnig að borgararnir eigi að fylgja settum lögum og reglum.
Um er að ræða breytta framkvæmd eftir að breytingar á útlendingalögum tóku gildi þann 4. júlí sl. Með breytingunum er aðeins heimilt að endurnýja dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar ef skilyrðum laga um viðbótarvernd er enn fullnægt við afgreiðslu umsóknar um endurnýjun. Ef skilyrði viðbótarverndar eru áfram uppfyllt er dvalarleyfi endurnýjað. Öllum einstaklingum í þessari stöðu er boðið að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli áður en synjað er um endurnýjun.
Eins og fram kemur að ofanverðu er alþjóðleg vernd ekki dvalarleyfisflokkur fyrir einstaklinga sem eru í leit að betri lífskjörum heldur dvalarleyfisflokkur fyrir þá sem eiga á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri meðferð eða að verða fyrir alvarlegum skaða vegna vopnaðra átaka í heimalandi. Ef engin slík hætta er fyrir hendi er ljóst að viðkomandi uppfyllir ekki skilyrði um vernd, þrátt fyrir að hann gæti uppfyllt önnur skilyrði til dvalarleyfis.
Sósíalistaflokkur Íslands
Hver er stefna flokksins í málefnum fólks á flótta?
Stefna flokksins í málefnum fólks á flótta kemur fram m.a. í velferðarstefnu flokksins þar sem segir : Á Íslandi er velferð lögbundin og skal vera aðgengileg öllum án skilyrða, óháð kyni, uppruna, aldri, trú, fötlun eða kynhneigð einnig þeim sem hingað koma vegalausir. Velferðarkerfið snýst um að skapa þær aðstæður sem þarf til að fólk finni til öryggis og líði vel, tryggja að grunnþörfum allra sé mætt svo fólk geti lifað með reisn og notið almennra mannréttinda í samræmi við ákvæði íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga. Einnig segir í stefnu okkar um jafnréttismál:
Stefna Sósíalistaflokksins er að allir séu jafnir í alþjóðlegu samhengi og ber að virða mannréttindi þeirra sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd. Veita skal þeim réttláta og mannúðlega málsmeðferð en ekki mismuna fólki sem hingað leitar vegalaust.
Þá segir í stefnu flokksins um dómsmál: Móttöku flóttafólks skal sinna af alúð og veita fólki hraða og mannúðlega málsmeðferð. Endurskoða þarf þau lög sem við störfum eftir svo sem þeim sem kveða á um svokölluð örugg ríki en virða skal lög sem ríkið hefur sett sér þegar kemur að vernd barna og fólks í viðkvæmri stöðu. Þá þarf að eiga sér stað gagnkvæm aðlögun þ.e. móttökuríkið þarf einnig að aðlaga sig að fjölbreytileika, t.d. mismunandi trúar og hefða. Þá þarf ríkari áhersla að vera lögð á þvermenningu, samtali á milli ólíkra menningarheima innanlands.
Og í stefnu okkar um menntamál:
Börn á flótta skulu eiga rétt á námi á sama hátt og önnur börn á landinu og séu þeim búnar viðunandi aðstæður til að stunda nám í venjulegum hverfisskóla svo í kringum þau myndist eðlilegt tengslanet.
Og að lokum í stefnu okkar um utanríkismál:
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er að útlendingalög landsins verði endurskoðuð frá grunni með mannúð og mannréttindi í öndvegi.
Þar segir einnig...
Í dag stendur heimsbyggðin frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar og flóttamenn hafa ekki verið fleiri síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta er afleiðing styrjalda og valdabaráttu, efnahagslegs vanda veikstæðra þjóða í alþjóðavæddum kapítalisma og loftslagsbreytingar. Gera þarf ráð fyrir því að flóttafólki muni fjölga verulega á næstu árum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga. Allar þjóðir heimsins þurfa að axla ábyrgð á þessum vanda og til að mæta honum þurfum við að endurskoða útlendingalögin sem við störfum eftir í dag. Innflytjendum mun fjölga á næstu ár og áratugi og styrkja íslenskt samfélag, rétta við óhagstæða aldurssamsetningu og tryggja okkur aukið afl til að standa undir velferð og réttlæti innan samfélagsins. Hagsmunir okkar fara því saman með fólkinu sem hrakið hefur verið á flótta og leitar sé að nýju heimili þar sem það getur tryggt sér og sínum öryggi, frið og þokkalega afkomu. Taka verður á móti flóttafólki með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi og hafa það í huga að við erum öll íbúar á sömu jörð.
Hver er afstaða flokksins til þess sem dómsmálaráðherra hefur kallað lokað búsetuúrræði fyrir fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd?
Við erum alfarið á móti lokuðu búsetuúrræði og viljum að allir njóti mannréttinda og fái lifað með reisn. Það er okkar stefna að taka vel á móti fólki sem sækir hér um vernd og sjá til þess að það sé ekki einangrað á afviknum stöðum né í lokaðri búsetu.
Hver er afstaða flokksins til þess að nú séu íslensk stjórnvöld farin að afturkalla dvalarleyfi einstaklinga, barna og fjölskyldna sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd og dvalið árum saman?
Afstaða sósíalista er sú að hér sé vegalausum ekki vísað frá og móttöku flóttafólks sé sinnt af alúð og þeim veitt hröð og mannúðleg málsmeðferð. Sósíalistar hafa ekki haft hugmyndaflug í eins ómannúðlegar aðgerðir og viðhafðar eru í dag og bera stefnur síðustu ára vott um slíkt. Þó vildi flokkurinn endurskoða stefnuna í átt að mannúðlegri nálgun strax þegar dómsmálastefnan var samin árið 2020.
Nú liggur fyrir heildræn stefna Sósíalista í málefnum íbúa af erlendum uppruna og fólks á flótta og er hún í prófarkalestri.Hún verður lögð fyrir til samþykktar von bráðar og eru þar dregnar skýrari línur en úr öðrum málaflokkum þó málefni þessi beri á góma víða hjá okkur.
Viðreisn
Hver er stefna flokksins í málefnum fólks á flótta?
Ísland getur hvorki verið galopið né algerlega lokað. Við þurfum að geta tekið vel á móti þeim sem þurfa vernd og vilja koma hingað og verða hluti af íslensku samfélagi. Af því leiðir að fjöldinn verður því að vera viðráðanlegur og málsmeðferð má ekki taka of langan tíma.
Viðreisn tekur ekki þátt í þeim harkalega málflutningi sem tíðkast í auknu mæli um fólk af erlendum uppruna. Umræðu um fólk í mjög viðkvæmri stöðu á ekki ítrekað að vera skotspónn í harkalegri pólitískri umræðu.
Hver er afstaða flokksins til þess sem dómsmálaráðherra hefur kallað lokað búsetuúrræði fyrir fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd?
Með mannréttindi og mannúð að leiðarljósi ætti Ísland að setja fordæmi í málefnum flótta- og farandfólks sem hingað leitar í von um betra líf. Veita á flóttafólki og hælisleitendum mannsæmandi búsetuúrræði. Viðreisn hefur ekki talað gegn lokuðum búsetuúrræðum fyrir fólk sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd, þó með þeim fyrirvara að börn skuli ekki sett í lokað búsetuúrræði.
Hver er afstaða flokksins til þess að nú séu íslensk stjórnvöld farin að afturkalla dvalarleyfi einstaklinga, barna og fjölskyldna sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd og dvalið árum saman?
Viðreisn leggur áherslu á mannúðlega stefnu í málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ísland á að leggja sitt að mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og móttöku flóttafólks. Afturköllun dvalarleyfis fólks sem hefur dvalið hér árum saman fellur tæpast að þeirri stefnu. Það er ótækt að úrlausn mála þeirra sem hingað leita skjóls taki mörg ár. Því þarf að breyta.
Vinstri græn
Hver er stefna flokksins í málefnum fólks á flótta?
Sá hluti sem snýr að fólki á flótta í stefnu flokksins um innflytjendur og fólk á flótta sem var samþykkt á landsfundi Vinstri grænna í október 2024
Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að málefni fólks á flótta hafi til þessa verið of lituð af því að vera stjórnsýsluverkefni frekar en þjónustu við fólk með mannúð og virðingu að leiðarljósi.
Aldrei hafa fleiri þurft að yfirgefa heimili sín vegna stríðsátaka, ofsókna, loftslagsbreytinga og fátæktar. Ísland á að taka vel á móti fólki á flótta og umsækjendum um alþjóðlega vernd. Mikilvægt er að fólk sem hingað leitar í skjól fái skjóta, góða og sanngjarna málsmeðferð. Skilvirkni kerfisins á aldrei að vera á kostnað mannúðar- og réttlætissjónarmiða. Fólk sem hingað leitar hefur sama rétt til mannlegrar reisnar og sömu mannréttindi og aðrir í okkar samfélagi. Þá skal tryggja hinsegin fólki á flótta sérstaka vernd í lögum um útlendinga.
Mikilvægt er að taka undir ítrekaðar ábendingar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um heimild ríkja til að taka umsóknir til efnismeðferðar þó svo að þau beri ekki ábyrgð á henni samkvæmt öðrum ákvæðum. Standa ber vörð um upphaflegan tilgang Dyflinnarsamstarfsins sem felur í sér að aðildarríki deili ábyrgð vegna komu fólks á flótta til Evrópu og varpi henni ekki yfir á önnur ríki.
Börn á flótta, bæði þau sem eru fylgdarlaus og þau sem eru í fylgd foreldra/forsjáraðila, eru fyrst og síðast börn og meta skal aðstæður þeirra með sjálfstæðum hætti. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmáli Evrópu sem og aðrir alþjóðasamningar er varða réttindi barna og Ísland er aðili að, skulu alltaf hafðir að leiðarljósi þegar fjallað er um mál barna á flótta. Fylgdarlaust barn á flótta er í viðkvæmri stöðu og á rétt á skólagöngu og þjónustu í samræmi við hana. Tryggja þarf að húsnæði sem fylgdarlausum börnum býðst við komuna til landsins sé öruggt og barnvænt. Ef aldur barns er á reiki skal barnið ætíð njóta vafans. Sé nauðsynlegt að leggja mat á aldur barns skal gera það með heildstæðu mati og aldrei skal notast við aldursgreiningar á tönnum.
Fordómar sem byggja á uppruna og trúarbrögðum verða ekki liðnir á Íslandi, né heldur orðræða og framkoma sem felur í sér hatur og tortryggni gagnvart innflytjendum. Við fögnum þeim áföngum sem nú þegar hafa náðst t.a.m. Móttökustöð flóttafólks og að heildarstefnumótun í málefnum innflytjenda sé langt komin.
Eftirfarandi eru kosningaáherslur VG sem koma sérstaklega inn á fólk á flótta en auðvitað eiga allar okkar stefnur við þau líka:
-
Við eigum að taka vel á móti fólki á flótta og umsækjendum um alþjóðlega vernd. Skilvirkni kerfisins á aldrei að vera á kostnað mannúðar- og réttlætissjónarmiða, og afgreiðsla umsókna á að vera skjót og fagleg.
-
Barnasáttmálinn skal alltaf hafður að leiðarljósi í málum barna á flótta.
-
Fjölbreytileiki er styrkur hvers samfélags og því á íslenskt samfélag að taka þeim fagnandi sem hingað koma, óháð uppruna þeirra eða þeim forsendum sem dvölin byggir á. Vinna þarf að markvissri inngildingu í samfélaginu og valdeflingu jaðarsettra hópa.
-
Endurskoða verður skipulag og vinnubrögð Útlendingastofnunar þannig að starfsemi stofnunarinnar taki fullt tillit til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og annarra alþjóðlegra mannréttindasamninga.
-
Setja þarf skýran laga- og refsiramma um hatursorðræðu og hatursglæpi í garð hinsegin fólks, innflytjenda, fatlaðs fólks, kvenna og annarra hópa.
Hver er afstaða flokksins til þess sem dómsmálaráðherra hefur kallað lokað búsetuúrræði fyrir fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd?
Vinstri græn eru algjörlega á móti lokuðum búsetuúrræðum fyrir fólk í leit að alþjóðlegri vernd. Þetta hefur Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna sagt, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra og varaformaður Vinstri grænna sagt og Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætirráðherra og fyrrverandi formaður Vinstri grænna sagt.
Hver er afstaða flokksins til þess að nú séu íslensk stjórnvöld farin að afturkalla dvalarleyfi einstaklinga, barna og fjölskyldna sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd og dvalið árum saman?
Okkur í VG hugnast ekki að fólk sem hefur fest hér rætur og er búið að vinna sér inn réttindi til ótímabundins dvalarleyfis sé í hættu á að vera vísað úr landi. Okkur í VG finnst alls ekki í lagi að fólk fái litla sem engar leiðsögn. Það er ólíðandi að fólk fái 15 daga til að leggja fram umsókn um dvalarleyfi og þurfi sjálft að finna út hvaða flokk það passar undir. Stjórnvöld skulu hafa frumkvæði að því að veita innflytjendum nauðsynlegar upplýsingar og tryggja starfsfólki fræðslu svo það geti sinnt hlutverki sínu við að miðla þeim. Mikilvægt er að auðvelt aðgengi sé að upplýsingum, þjónustu og ráðgjöf. Þeim, sem ekki skilja íslensku, skal standa til boða túlkun svo tryggja megi að þau fái fullnægjandi aðstoð og þjónustu.
Skilvirkni kerfisins á aldrei að vera á kostnað mannúðar- og réttlætissjónarmiða. Það er ekki boðlegt að þetta fólk eigi á hættu að missa réttindi sín, til að mynda kennitölu og félagslegan stuðning.
Endurskoða verður skipulag og vinnubrögð Útlendingastofnunar þannig að starfsemi stofnunarinnar taki fullt tillit til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og annarra alþjóðlegra mannréttindasamninga. Auk þess er hægt að gera athugasemdir við túlkun Útlendingastofnunar sem og Kærunefndar útlendingamála hvað þetta ákvæði laganna varðar, að aðstæður í heimalandi hafi breyst, sem og í öðrum úrskurðum og mati stofnanna beggja. Þessar stofnanir reka mjög harða stefnu.