top of page
Tillögur stjórnar Solaris til ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að umbótum í málefnum fólks á flótta

Stjórn Solaris hefur útbúið tillögur fyrir íslensk stjórnvöld til þess að stuðla að umbótum í málefnum fólks á flótta. Um er að ræða fimm tillögur sem við teljum vera forgangsmál í dag auk sérstakra aðgerða sem snúa að einstaklingum sem hafa flúið þjóðarmorðið á Gaza og aðstandendum þeirra og þola ekki bið. Í ljósi þess að aðgerðirnar ná þvert á ráðuneyti og ábyrgð ráðherra í ríkisstjórn bindum við vonir við aukið samtal við Alþingi og ráðherra í ríkisstjórninni og samvinnu við að stuðla að því að mannúð, mannréttindi og réttindi barna á flótta séu í hávegum höfð, þar sem raddir skjólstæðinga samtakanna, sem eru mestu sérfræðingarnir í málaflokknum, fái að heyrast. 

motmæli2_edited_edited.jpg

Stjórn Solaris leggur áherslu á eftirfarandi þætti þegar
kemur að umbótum í málefnum fólks á flótta:

  1. Þann 1. júlí 2023 tóku gildi breytingar á lögum um útlendinga nr. 80/2016 sem samþykkt voru á Alþingi þann 15. mars sama ár. Lögin, sem þingfólk Samfylkingarinnar og Viðreisnar greiddu atkvæði gegn, heimiluðu yfirvöldum að svipta umsækjendur um alþjóðlega vernd allri þjónustu 30 dögum eftir að neikvæð niðurstaða í umsókn um vernd berst einstaklingum. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, sagði á sínum tíma “rétt að afnema lagaákvæði um að svipta hælisleitendur allri þjónustu fái þeir synjun um vernd.”[1]

    Stjórn Solaris hvetur ríkisstjórnina til þess að breyta lögum um útlendinga og fella á brott þá þjónustusviptingu sem komið var á með lögum nr. 14/2023 í 8. mgr. 33. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016 í mars 2023. Lagt er til að litið sé til ríkja eins og til dæmis Póllands fyrir fordæmi um mannúðlegri nálgun í málum fólks sem ekki er hægt að brottvísa, þar sem réttur til atvinnuþátttöku fylgir umborinni dvöl. Einnig er hægt að líta til landa eins og Þýskalands og Bretlands.[2]
     

  2. Þann 4. júlí 2024 tóku gildi breytingar á lögum um útlendinga sem samþykktar voru á Alþingi í júní sama ár. Með lagabreytingunum var réttur flóttafólks til fjölskyldusameiningar þrengdur til muna. Þannig er til dæmis handhöfum viðbótarverndar og þeirra sem hafa hlotið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á Íslandi nú gert að bíða í tvö ár áður en þeim er heimilt að sækjast eftir fjölskyldusameiningu. Það þýðir að þeir einstaklingar geta ekki sameinast nánustu aðstandendum um árabil.

    Fjölskyldusameiningar eru grundvallarréttur fólks á flótta og eru ein af þeim örfáu öruggu leiðum sem fjölskyldur sem hafa neyðst til þess að leggja á flótta hafa til þess að koma börnum sínum í skjól. Með því að þrengja rétt flóttafólks til fjölskyldusameininga er verið að þvinga fólk til þess að grípa til hættulegri leiða sem ógna öryggi og heilsu fólks á flótta. Þá sýna rannsóknir fram á að skerðing á möguleikum á fjölskyldusameiningum eykur hættuna á einangrun og ýtir undir áhyggjur, streitu, vanlíðan og erfiðar tilfinningar. Það gerir virka þátttöku og inngildingu einstaklinga sem þegar hafa fengið dvalarleyfi í íslensku samfélagi ólíklegri.[3]

    Samfylkingin og Viðreisn sátu hjá við atkvæðagreiðslu lagafrumvarpsins sem gefur til kynna að andstaða hafi verið við innihald þess. Stjórn Solaris hvetur ríkisstjórnina til þess að breyta lögum um útlendinga og fella á brott þrengingu á réttinum til fjölskyldusameiningar. Erfitt er að finna rökstuðning fyrir nauðsyn aðgerðarinnar, sem ljóst er að sé brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og afturför í réttindum flóttafólks, á sama tíma og neikvæð áhrif hennar eru augljós. Flóttafólk sem fær dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar er lítill hópur, en um er að ræða lífsbjörg fyrir þau sem eiga í hlut.[4]
     

  3. Stjórn Solaris gerir alvarlegar athugasemdir við allar hugmyndir um úrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem fela í sér frelsissviptingu og skerðingu á almennum réttindum fólks sem ekki hefur brotið landslög, óháð því hvað slík úrræði eru kölluð.

    Ef stjórnvöld breyta lögum um útlendinga þannig að ákvæðið um þjónustusviptingu umsækjenda um alþjóðlega vernd verður fellt á brott er ljóst að þeim einstaklingum sem mögulega yrðu þvingaðir til vistunar í slíkum úrræðum myndi fækka til muna. Hið sama má segja ef stjórnvöld líta til mannúðlegri nálgunar í þeim tilfellum sem hægt væri að flokka undir “umborna dvöl” fólks eins og fjallað er um hér að ofan, þar sem oft er um að ræða einstaklinga sem ekki er hægt að senda úr landi. Stjórn Solaris hvetur ríkisstjórnina til þess að horfa til slíkra leiða í stað þess að setja á laggirnar lokað úrræði sem felur í sér frelsissviptingu fólks og brot á mannréttindum þess.
     

  4. Það vakti mikla furðu að íslensk stjórnvöld hafi sagt sig frá samstarfi við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (IOM) sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem aðstoðar fólk á flótta við að sameinast fjölskyldum sínum, meðal annars með því að hafa uppi á fólki og/eða taka á móti fólki frá átakasvæðum og greiða leið þeirra á milli landa til að þau geti sameinast aðstandendum sínum. Án slíkrar aðstoðar skerðast möguleikar á fjölskyldusameiningum til muna. Áhrifin af því sjást nú þegar hér á landi. Stjórn Solaris hvetur ríkisstjórnina til þess að endurvekja samstarfið við IOM án frekari tafa, hafi það ekki verið gert nú þegar.
     

  5. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins eða Barnasáttmálinn, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 26. janúar 1990 og fullgiltur 28. október 1992. Samningurinn öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 27. nóvember 1992 og Barnasáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013 með lögum nr. 19/2013. 

    Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi óháð réttindum fullorðinna. Í honum er fjallað um skyldur stjórnvalda þegar kemur að því að tryggja að öll börn búi við þau réttindi og í 22. grein sáttmálans segir að “börn sem þurfa að flýja heimaland sitt sem flóttamenn eiga rétt á vernd og stuðningi við að nýta sér þau réttindi sem þau eiga samkvæmt Barnasáttmálanum í nýja landinu.”

    Árum saman hefur Barnasáttmálinn verið virtur að vettugi þegar kemur að réttindum barna á flótta í íslensku samfélagi. Nánast undantekningarlaust hefur verið litið fram hjá því grundvallarsjónarmiði sem sáttmálinn byggir á, að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi, óháð fullorðnum, en ávallt er litið á börn sem sækja um alþjóðlega vernd sem viðbót við foreldra/forsjáraðila og umsókn þeirra. Það er því almennt ekki litið sérstaklega til aðstæðna þeirra. Það eitt og sér er gróft brot á réttindum barna á flótta. Slík vinnubrögð leiða til þess að önnur réttindi barna á flótta eru mörg hver ítrekað brotin og tækifæri þeirra til verndar skert. Í raun eru fjöldi brota svo mikill og marglaga að ekki er hægt að telja þau upp hér. Nauðsynlegt er að kortleggja stöðu barna með flóttabakgrunn í íslensku samfélagi, meðal annars með tilliti til móttöku, þjónustu, réttinda, skólasóknar og fleiri mikilvægra þátta. 

    Stjórn Solaris hvetur ríkisstjórnina til þess að fara í algjöra endurskoðun á móttöku fólks á flótta í íslensku samfélagi í heild sinni, meðal annars með tilliti til löggjafar, umgjörðar, stofnana og stjórnsýslu. Í þeirri vinnu ætti að leggja áherslu á mannúð, mannréttindi og réttindi barna á flótta, þar sem farsæld barna og inngilding er í fyrirrúmi. Þar ætti Barnasáttmálinn að vera rauði þráðurinn. 


Palestína
Stjórn Solaris hvetur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur til þess að grípa til aðgerða vegna yfirstandi þjóðarmorðs á Gaza. Þær aðgerðir sem hér eru lagðar til krefjast ekki samstarfs við fleiri ríki og snúa að einstaklingum sem tengjast íslensku samfélagi. Þær eru þrjár og eru í samræmi við þær kröfur sem hafa verið til staðar í samfélagsumræðunni um tíma.


Þær eru:

  1. að íslensk stjórnvöld aðstoði alla einstaklinga með dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar við að komast til Íslands án frekari tafa,

  2. að íslensk stjórnvöld setji fjölskyldusameiningar Palestínufólks í forgang,

  3. og veiti palestínskum umsækjendum um alþjóðlega vernd dvalarleyfi á Íslandi.

 

[1] https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-08-14-leysir-ekki-vandann-ad-svipta-litinn-hop-thjonustu-389775

[2] https://heimildin.is/grein/18817/flottafolk-a-gotunni-brottvisunarbudir-eda-log-um-umborna-dvol-og-samfelagslega-abyrgd-vid-mottoku-flottafolks/

[3] Sjá til dæmis https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/1177083X.2014.944917; https://www.taylorfrancis.com/chapters/edit/10.4324/9780429024832-11/temporality-everyday-security-lives-separated-refugee-families-johanna-leinonen-saara-pellander; https://www-media.refugeecouncil.org.uk/media/documents/Without-my-family-report-AW-Jan2020-LoRes.pdf

[4] https://www.visir.is/g/20242568941d/um-fimm-prosent-fjolskyldusameininga-vegna-flottamanna-og-haelisleitenda

bottom of page