top of page

Stefnuyfirlýsing Solaris

Solaris samtökin eru hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.

Tilgangur samtakanna er að bregðast við þeirri neyð sem hælisleitendur og flóttafólk býr við víða á Ísland, sem birtist meðal annars í bágum aðstæðum, félagslegri einangrun og skorti á aðgengi að nauðsynlegri þjónustu, eins og til dæmis heilbrigðisþjónustu. 

Markmið samtakanna er að þrýsta á umbætur í málefnum hælisleitenda og flóttafólks á Íslandi og að mannúð og réttlæti sé haft að leiðarljósi í málaflokknum, að berjast fyrir bættri stöðu flóttafólks og hælisleitenda hér á landi og fyrir því að mannréttindi þeirra og önnur grundvallarréttindi séu virt. 

Samtökin taka skýra afstöðu gegn öllum birtingarmyndum fordóma, útlendingaandúðar, hatursorðræðu og rasisma í garð fólks á flótta.

 

Samtökin berjast gegn mismunun, óréttlæti og öfgum sem beinast að fólki á flótta og hafna öllum málflutningi sem ýtir undir slíkt. Samtökin leggja áherslu á að íslenskum stjórnvöldum beri siðferðisleg skylda til þess að veita fólki á flótta skjól og vernd hér á landi og að íslensku samfélagi beri skylda til þess að vernda  jaðarsetta hópa eins og fólk á flótta frá áreitni og ofbeldi eins og hatursorðræðu og hatursglæpum.

Tilgangi sínum og markmiðum hyggjast samtökin ná með nánu samstarfi við almenning, yfirvöld og önnur samtök sem vinna að sama tilgangi og markmiðum. Með virkri þátttöku í samfélagslegri umræðu um málefni sem snúa að hagsmunum skjólstæðinga samtakanna, tilgangi þeirra og markmiðum. Með uppfræðslu, meðal annars um málefni fólks á flótta, mannréttindi og fjölmenningu með það að markmiði að auka samkennd og sporna gegn fordómum og mismunun.

bottom of page